Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn þarf ekki að kynna, en við gerum það samt. Það eru fáir Íslendingar sem hafa kitlað hláturtaugar landans oftar og lengur, í ótal hlutverkum í sjónvarpi, kvikmyndum, á sviði og á hljómplötum. Þessa dagana heldur hann málverkasýningu á eigin verkum, en síðast þegar hann var með sýningu, fyrir tveimur árum, seldust allar myndirnar á opnunarkvöldinu. Þetta er auðvitað Þórhallur Sigurðsson, Laddi. Við forvitnumst um hans æsku og uppvöxt og spyrjum hann út í listmálarann Ladda.
Við kynntum okkur örlagasögu Helgu EA2, skips sem keypt var til Íslands nokkru fyrir þar síðustu aldamót. Helga, unnusta eins smiðsins lést við sjósetningu skipsins og var eftir það talin verndarengill skipsins og fylgdi því og verndaði þar til skipið sigldi áhafnarlaust út á haf og hefur síðan ekki sést. Ragnar S. Helgason frá Álftafirði í N-Ísafjarðarsýslu samdi ljóð um sögu skipsins og hefur Ásbjörg Jónsdóttir samið tónverk við ljóðið fyrir söngkonuna Ragnheiði Árnadóttur. Við fengum þæ Ragnheiði og Ásbjörgu í þáttinn.
Sigurlaug Margrét, besti vinur bragðlaukanna, talaði um síðdegisdrykkju í matarspjallinu í dag og ýmislegt fleira sem viðkemur slíkri iðju.
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR