Alþjóðlegur dagur líknarmeðferðar er árviss viðburður sem verður haldinn nú á laugardaginn. Við fræddumst um þennan dag, líknarmeðferðir og þema dagsins í ár, en þær Arna Dögg Einarsdóttir, sérfræðilæknir í lyf- og líknarlækningum og Ólöf Ásdís Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur, komu í þáttinn, en þær eru báðar frá Lífinu - Samtökum um líknarmeðferð og starfa báðar á líknardeild Landspítalans í Kópavogi.
Lára G. Sigurðardóttir, læknir og doktor í lýðheilsuvísindum skrifaði áhugaverða grein í Fréttablaðið um mikilvægi svefns þar sem hún talar meðal annars um sjúkdóminn Fatal Familial Insomnia, sem dregur fólk til dauða. Þótt sjúkdómurinn sé afar fátíður gefur hann mikilvæga innsýn í áhrif svefnleysis. Hún talar í greininni sérstaklega um mikilvægi nægs svefns hjá ungu fólki og hvernig hægt er að aðstoða þau við að fá nægan svefn. Lára fræddi okkur um þetta í þættinum.
Við héldum áfram umfjöllun okkar um forsjármál og forræðisdeilur, þegar foreldrar barna lenda í deilum og ná ekki samkomulagi um umgengni og forsjá barna sinna. Þessi mál eru gríðarlega viðkvæm og margslungin. Við leituðum til Gunnars Hrafns Birgissonar, doktors í klínískri sálfræði hjá Háskóla Íslands, sem hefur mikla reynslu í því að koma að sáttum í slíkum málum sem hann deildi með okkur í þættinum.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON