Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Húsnæði Ljóssins er eins og fallegt heimili þar sem hægt er að koma í kaffihúsastemningu og spjalla við náungann. Til að auka virkni og þrek býður Ljósið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra. Sólveig Kolbrún Pálsdóttir frá Ljósinu kom í þáttinn.
Fjarðabyggð hefur tekið ákvörðun um að banna börnum að nota sín eigin snjalltæki á skólatíma. Nokkur umræða hefur verið um þetta bann en veigamestu rökin fyrir ákvörðun fræðslunefndar um að mæla með banni komu úr sérfræðiáliti sálfræðinga hjá Skólaskrifstofu Austurlands. Þeir mæltu eindregið með banni í ljósi rannsókna á áhrifum snjalltækjanotkunar. Við hringdum austur í Neskaupsstað í Sigurð Ólafsson, félags- og mannauðssérfræðing og formann fræðslunefndar Fjarðabyggðar í þættinum.
Það eru mörg skemmtileg söfn á Akureyri, Flugsafn, Mótórhjólasafn, Iðnaðarsafn, Minjasafn, Leikfangasafn og svo auðvitað nýopnað endurbætt Listasafn. Enn eitt safnið bættist í flóruna fyrir tæpum tveimur árum, Lísa Páls heimsótti Norðurslóðasýningu Arngríms Jóhannssonar flugstjóra í þættinum í dag.
Umsjón Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson