Flestir kannast við að vera stundum uppiskroppa með hugmyndir um kvöldmat. Hvað er í matinn í kvöld er jú algeng spurning á heimilum, en hún Ingibjörg Sólrún Ágústsdóttir ákvað að leysa þetta með því að hafa þemavikur á sínu heimili og elda mat frá einhverju Evrópulandi í heila viku. Hún byrjaði í febrúar og ákvað að taka þetta í stafrófsröð og byrjaði á að elda mat frá Andorra og setti uppskriftir og myndir inná Instagram og smátt og smátt fjölgaði fylgjendum. Þetta uppátæki hennar stendur ennþá yfir því, eins og hún segir sjálf, eru fjölmörg lönd eftir. Við hittum Ingibjörgu og fengum að vita meira um þetta.
Jógasetrið stendur fyrir sumarnámskeiði fyrir börn sem vilja læra leiklist, jóga og að tengjast öðru fólki. Þær Álfrún Örnólfsdóttir og María Dalberg sem kenna á námskeiðinu segja námskeið á svona nótum nauðsynleg fyrir börn sem þurfa að finna leiðir út úr tölvunum í sumar. María kom í þáttinn í dag.
Sigurbjörg Halldóra Halldórsdóttir er nemandi í 9. bekk í Grunnskólanum á Drangsnesi og eini unglingurinn á staðnum. Hún syngur í kirkjukórnum, stundar skíði og unir hag sínum vel. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti Sigurbjörg í skólanum sem er jafnframt kapella sveitarfélagsins Kaldrananeshrepps.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON