Við fjölluðum um næringu eldri borgara í þættinum í dag en svokallað velferðarkaffi verður haldið á morgun á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í félagsmiðstöðinni Borgum við Spöng í Grafarvogi. Að þessu sinni verður fjallað um matarþjónustu velferðarsviðs og næringu eldri borgara. Ólöf Guðný Geirsdóttir dósent við matvæla- og næringafræðideild Háskóla Íslands, sem sagði meðal annars frá rannsóknum um næringu eldri borgara og Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkur komu í þáttinn.
Geðraskanir er meginástæðan fyrir brotthvarfi úr framhaldsskóla, atvinnuleysi og örorkutengdum greiðslum á Norðurlöndunum. Nú standa yfir læknadagar í Reykjavík og í gær flutti Björk Vilhelmsdóttir félagsráðgjafi og sérfræðingur hjá VIRK, erindi sem bar yfirskriftina “Er læknisvottorð um óvinnufærni ávísun á fátækt?“ Björk kom í þáttinn og sagði frá.
Hvað eru verkefnamiðuð vinnurými? Steinar Þór Ólafsson er nýr pistlahöfundur í Mannlega þættinum, en hann mun flytja pistla á næstunni undir heitinu Kontoristinn þar sem hann veltir fyrir sér hinum ýmsu hliðum þess að vinna á skrifstofum hverskonar, hefðbundnum og óhefðbundnum. Í fyrsta pistlinum sem var í þættinum í dag fjallaði hann um vinnurými, mismunandi stefnur og strauma, opin vinnurými, skilrúm og næði og fleira.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON