Háskóli Íslands stendur fyrir nýrri fundaröð, sem ber heitið „Nýsköpun - hagnýtum hugvitið“. Ætlunin með fundaröðinni er að undirstrika mikilvægi nýsköpunar sem er undirstaða framfara og treysta samkeppnisstöðu Íslendinga til langframa. Í röðinni verður fjallað um ferðalag hugmynda yfir í fullmótuð fyrirtæki eða afurðir og hvernig íslenskt samfélag og stjórnvöld geta betur stutt við nýsköpunarstarf. Við fengum Einar Stefánsson frumkvöðull og prófessor í augnlækningum og Steinunni Gestsdóttur, aðstoðarrektor í HÍ í þáttinn til að segja frá.
Fjölmenningarþing Reykjavíkurborgar var haldið í Ráðhúsi Reykjavíkur á laugardag. Þingið var nú haldið í fimmta sinn. Markmiðið með þinginu er að stofna til samtals um málefni íbúa af erlendum uppruna og stuðla þannig að bættri þjónustu Reykjavíkurborgar, en alls búa um það bil 18.000 íbúar af erlendum uppruna í borginni. Í þáttinn komu þær Irina Ogurtsova, sérfræðingur á mannauðsskrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkur og Joanna Marcinkowska frá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og verkefnastjóri Fjölmenningarþingsins og sögðu frekar frá.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var sagnfræðingurinn Stefán Pálsson. Við forvitnuðumst um hvaða bækur eru á náttborðinu hjá honum, hvað hann er að lesa þessa dagana og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hann í gegnum tíðina.
Umsjón Lísa Pálsdóttir og Gunnar Hansson