Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sögufélag og Háskólinn í Reykjavík efna til fundaraðar í nóvember með yfirskriftinni Fullveldi Íslands í 100 ár: Hugsjón og reynd. Fondaröðin tengist útgáfu bókarinnar Frjáls og fullvaldaríki: Ísland 1918-2018 og tilgangur fundanna er að taka til umræðu fullveldishugmyndina í íslenskum stjórnmálum, þýðingu fullveldis fyrir samfélagsþróun á Íslandi og spurninguna um hvort þrengt hafi verið að fullveldi Íslands á síðustu áratugum. Fyrsti fundurinn er í dag og ber hann yfirskriftina: Fullveldið í reynd: Hvaða gagn hafa Íslendingar haft af fullveldinu? Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði og ritstjóri nýju bókarinnar og Silja Bára Ómarsdóttir dósent í stjórnmálafræði komu í þáttinn.
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður var að gefa út 3ju matreiðslubókina sína, Hvað er í matinn? Í bókinni gefur Jóhanna matarhugmyndir fyrir 9 vikur svo það verður líklega kærkomið fyrir marga að fletta í gegnum hana, enda oft mikil heilabrot um hvað á að vera í matinn á heimilum. Guðrún spjallaði við Jóhönnu í þættinum í dag.
Ofnæmi hefur aukist svo mikið á undanförnum árum að það er talað um faraldur í því sambandi. Astmi, heymæði og fæðuofnæmi eykst stöðugt og við því hefur ekki fundist afgerandi lækning. Rannsóknir benda hins vegar til þess að ónæmisfaraldurinn sé afleiðing af auknu þéttbýli í borgum og minnkandi tengslum við náttúrulegt umhverfi. Magnús R. Einarsson fjallaði um þetta í pistli dagsins.
Umsjón Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson