Margir þjást af ítrekuðu kvefi á hverju sumri áður en þeir átta sig á því að um frjókornaofnæmi er að ræða. Frjókornaofnæmi er eitt algengasta ofnæmið sem kemur fram í nefi og augum. Ástæðan er ofnæmi fyrir grasi, birki eða súrum þ.e. frjókornum frá gróðri. Við fengum Björn Árdal ofnæmislækni til okkar í dag og fræddumst meira um ofnæmi og eitthvað sem færri þekkja, eða afnæmingu.
Ásta Þórisdóttir lauk nýverið meistaranámi í hönnun frá Listaháskóla Íslands, lokaverkefnið samanstóð af veggteppi, úlpu og færanlegu eldhúsi, en upphafið má rekja til þess þegar Ásta var að losa kartöflugarðinn sinn við svokallað illgresi. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, ræddi við Ástu í Strandapistli dagsins.
Það hefur verið í nógu að snúast hjá fararstjóra íslenska Eurovisionhópsins í Ísrael, Felixi Bergssyni. Hatari stígur á svið í kvöld og í kvöld ræðst það hvort við komumst áfram í úrslitakeppnina á laugardaginn. Margir virðast á þeim buxunum og við vonum það svo sannarlega, alltaf skemmtilegra að komast í úrslit. Það vill svo til að einn af áhugasömustu Eurovisionaðdáendum landsins er góður vinur Felixar, Gunnar Helgason. Þeir Gunni og Felix sumsé voru Eurovision gestir Mannlega þáttarins í dag.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON