Við heyrðum af nýrri stöð, OsteoStrong, sem staðsett er í Borgartúni og býður uppá aðferð við að þétta bein með sérstöku Spectrum kerfi, sem eru 4 tæki, nokkurs konar líkamsræktartæki . Spectrum kerfið var fundið upp af Dr. John Jaquish, sem er höfundur bókarinnar „Osteogenic Loading“ en hann hefur flutt fjölda erinda á heimsþingi um beinþynningu og sat áður í stjórn American Bone Health sem eru samtök um beinheilsu í Bandaríkjunum. Nokkrar mínútur í tækjunum einu sinni í viku er nóg , segja hjónin Örn og Svanlaug sem opnuðu útbú á Íslandi í janúar sl. Mannlegi þátturinn skoðaði málið.
Tíundi bekkur Nesskóla í Neskaupstað fór með sigur af hólmi í Fjármálaleiknum 2019, spurningakeppni í fjármálalæsi. Alls tóku þrjátíu skólar á landsvísu þátt í leiknum að þessu sinni með samtals um 500 nemendur. Hver nemandi í bekknum þurfti að svara 60 fjölbreyttum krossaspurningum um fjármál. Við hringdum austur og heyrðum í Eysteini Þór Kristinssyni, skólastjóra Nesskóla og Ester Rún Jónsdóttur nemanda.
Þann 9. mars kom nýr bátur til hafnar í svokallaðri Kokkálsvík þar sem er hafnaraðstaða Drangsnesinga. Haldið var upp á daginn með pompi og prakt, og Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, mætti á staðinn og spjallaði skipstjórann Ingólf Haraldsson, föður hans Harald Ingólfsson og Finn Ólafsson Oddvita, auk þess sem heyrðist í Óskari Torfasyni, framkvæmdastjóra útgerðarinnar á staðnum.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON