MANNLEGI ÞÁTTURINN MIÐVIKUDAGUR 20.MARS 2019
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
Á undanförnum 40 árum hafa rúmlega 25 þúsund einstaklingar farið í meðferð á sjúkrahúsið Vog, eða 7,4 % núlifandi Íslendinga 15 ára og eldri. Í fyrra voru 2.275 innritanir á Vog og meðallegudagar sjúklinga voru 9,63 dagar. Í vímuefnagreiningu SÁÁ má sjá að neysluminstur þeirra sem hafa farið í meðferð hefur breyst talsvert á undanförnum 20 árum, árið 1995 voru tveir þriðju sem komu á Vog þar vegna áfengisneyslu, en sú tala hefur lækkað um meira en helming á sama tíma og neysla harðari efna hefur aukist talsvert, eins og til dæmis kókaíns og ópíóða. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, kemur í þáttinn í dag og fer með okkur yfir stöðuna og þróunina á undanförnum 40 árum.
Næstkomandi föstudag verður haldið upp á 70 ára slysavarna- og björgunarstarf í Borgarnesi - og sama dag verður tekin skóflustunga að nýju og glæsilegu björgunarhúsi. Það er í sjálfu sér merkilegt að lítil björgunarsveit ráðist í svo miklar framkvæmdir en okkur skilst að menn séu bjartsýnir í Borgarnesi. Töluverð endurnýjun hefur verið í sveitinni undanfarin misseri og fyrst og fremst hefur það verið fólk á miðjum aldri sem hefur verið að ganga í sveitina, sem er áhugavert.
Póstkort frá Spáni heita pistlarnir sem Magnús R. Einarsson mun senda okkur næstu vikur og mánuði, en hann fluttist til Alicante fyrir skemmstu. Í fyrsta pistlinum segir hann frá lífinu í borginni og hvernig það er að vera nánast mállaus að bagsa við að fá kennitölu og opna bankareikning til þess að geta fengið internet í íbúðina sem hann leigir.