Umhverfisstofnun hefur í næstu viku ítarlega rannsókn á umfangi matarsóunar á Íslandi árið 2019. Ríflega 1.000 heimili verða valin í slembiúrtaki og heimilisfólk beðið að taka þátt í rannsókninni. Þátttakendur verða beðnir að vigta mat og matarúrgang sem fer til spillis á heimilinu í eina viku. Margrét Einarsdóttir frá Umhverfisstofnun kom í þáttinn og sagði frá.
Við forvitnuðumst um 160 ára gamalt sakamál, þar sem ungbarn dó með vofeiflegum hætti og annað barn hvarf og kom ekki í ljós hvernig sem leitað var. Skárastaðamálið í Húnavatnssýslu er umfjöllunarefni bókar sem Anna Dóra Antonsdóttir sagnfræðingur hefur skrifað og í bókinni er skyggnst í dómabækur og fleiri samtímaskjöl, framburði vitna gerð skil og lesið í eyður. Skárastaðamálið hefur lengi legið í þagnargildi en nú er þögnin rofin, stendur á bókarkápu. Anna Dóra kom í þáttinn.
Gerður Guðmundsdóttir opnar myndlistarsýninguna Skynjun - Má snerta í Listasal Mosfellsbæjar á morgun, en sýningin er sérstaklega hönnuð með þarfir blindra og sjónskertra í huga og öfugt við það sem gengur og gerist eru gestir hvattir til að snerta verkin. Gerður kom í þáttinn.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON