Reynir Þór Eggertsson framhaldsskólakennari og Eurovisionsérfræðingur með meiru hélt til Helsinki í Finnlandi haustið 2017 þar sem hann tók við stöðu lektors í íslensku við Háskólann í Helsinki. Reynir er með doktorspróf í norrænum fræðum en hafði sinnt kennslu í dönsku og íslensku við Menntaskólann í Kópavogi síðan hann útskrifaðist árið 2009. Þar áður lauk hann kennaranámi frá Kennaraháskólanum, með dönsku og stærðfræði sem aðalfög, og sinnti grunnskólakennslu í nokkur ár. Nú er sá tími ársins að Eurovisionkeppnin minnir á sig, forkeppnin hér heima er framundan næstu vikur og Reynir er örugglega farin að huga að keppninni á einhvern hátt og mun sennilega fylgjast vel með undankeppninni í Finnlandi. Reynir var föstudagsgestur Mannlega þáttarins í dag.
Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, besti vinur bragðlaukanna, var með sitt vikulega matarspjall í þættinum í dag. Í þetta sinn hringdum við í Garðar Agnarsson í London, en hann er kokkur í lávarðadeildinni í breska þinginu. Við spurðum hann út í starfið, breskan mat og þorrablót Íslendinga sem haldið verður í salarkynnum lávarðadeildarinnar. Að lokum var rætt töluvert um fransbrauð.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON