Umhverfisstofnun veitti nýverið leyfi til innflutnings á fjórum risaköngulóm eða tarantúlum, frá Þýskalandi. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn fær köngulærnar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og auk sýningar og fræðslu, verða köngulærnar mögulega notaðar við meðferð á ofsahræðslu á köngulóm. Þorkell Heiðarsson, deildarstjóri Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, sagði okkur frekar frá þessum skepnum í þættinum í dag.
Er hægt að huga að garðyrkju innanhúss? Nú ætti vorið að vera alveg að koma og þótt það sé sól og 17 stiga hita í Danmörku er vetrarveður enn hjá okkur á Íslandi. En getum við notað þennan tíma heima við til að gera eitthvað með grænum fingrum? Er þetta góður tími til að huga að kryddjurtarækt í eldhúsglugganum eða forsá í plastbakka og setja undir rúm, eins og Stefán Karl leikari gerði hér um árið? Gurrý, eða Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur gaf okkur góð ráð í þættinum.
Á Ströndum eins og annars staðar á landinu eiga draugar að hafa gengið ljósum logum - þótt minna beri á þeim nú á dögum ljósmengunarinnar. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, kynnti sér sögu Sunndals-Helgu sem var niðursetningur í Sunndal innaf Bjarnarfirði á Ströndum. Hún varð úti og á svo að hafa fylgt afkomendum fólksins sem reyndist henni illa.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON