Í dag fá fulltrúar allra grunn- og leikskóla í Reykjavík afhenta 30.000 segla með áprentuðum upplýsingum um skjátíma barna og verður þeim dreift til allra leik- og grunnskólabarna í Reykjavík. Foreldrafélög í Breiðholti og skólastjórnendur hafa um árabil átt mjög gott samstarf um ýmis málefni og fyrir um þremur árum kom upp sú hugmynd að gera segul um skjátíma þar sem skjátímanotkun er stöðugt að aukast og foreldrar þurfa að kunna að umgangast þessa nýju tækni og vera börnunum fyrirmynd. Við fengum í heimsókn til okkar Birnu Sif Bjarnadóttur, skólastjóra Ölduselsskóla, Guðmund Magnús Daðason fyrir hönd foreldrafélaganna fimm í Breiðholti, Kjartan Helga Guðmundsson og Bríeti Glóð Pálmadóttur nemendur í Ölduselsskóla sem töluðu um hvaða áhrif það hefur að gera skólann símalausan.
Matur hefur mikinn mátt. Á síðustu árum hefur rannsóknum á tengslum mataræðis og ADHD fleygt fram. Í kvöld verður haldinn fræðslufundur ADHD samtakanna, þar sem Dr. Bryndís Eva Birgisdóttir, næringarfræðingur og Dr. Bertrand Lauth, geðlæknir fjalla um rannsóknir á tengslum ADHD og mataræðis. Hrannar B. Arnarsson, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna var í símanum og sagði frekar frá.
Ása Baldursdóttir kom til okkar í dag og sagði okkur frá nokkrum áhugaverðum hlaðvörpum. Í síðustu viku voru það svikahrappar og morð, en í þetta sinn sagði hún okkur frá áhugaverðum hlaðvörpum sem fjalla um sófasérfræðinga, hlaðvarp um föður umsjónarmannsins, sem skrifa erótískar bókmenntir, og að lokum hlaðvarp sem fjallar um þær glímur sem nýbakaðar mæður þurfa að takast á við.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON