Við höfum mikið fjallað um streitu og afleiðingar streitu í þættinum og nú kom Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir í þáttinn og fræddi okkur enn frekar um streitu og stress. Hann fékk áhuga á forvörnum og hvernig væri mögulegt að koma í veg fyrir andleg veikindi, hindra þau eða öllu heldur draga úr hindrunum þeirra vegna. Hann stofnaði fyrirtækið Forvarnir og í kjölfarið Streituskólann. Síðan eru liðin tæp 20 ár. En í Streituskólanum er meðal annars veitt fræðsla um eðli streitu og eftirfylgni, þar sem sérfræðingar Forvarna fylgjast með starfsmönnum fyrirtækja og stofnanna. Ólafur kom í þáttinn í dag.
Eins og hlustendur hafa tekið eftir hugum við sérstaklega að andlegu heilsunni í Janúar. Núvitund þýðir það að upplifa lífið þegar það er að gerast. Að vera andlega til staðar og auka meðvitund sína um það sem er að gerast innra með þér og í kringum þig. Núvitund þjálfar okkur í því að taka því sem lífið færir okkur með forvitni, opnum huga og án þess að dæma það. Við erum í raun að þjálfa athygli okkar. Bryndís Jóna Jónsdóttir er aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í jákvæðri sálfræði og Núvitund, hún kom í þáttinn í dag.
Á þjóðfræðistofu á Hólmavík eru unnin margvísleg verkefni og í mörgu að snúast. Eitt einkar athyglisvert verkefni er skráning dagbókar sem Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingur vinnur að. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti hann og Jón Jónsson forstöðumann þjóðfræðistofu og fékk að skyggnast í heim dagbókarinnar og önnur verkefni þjóðfræðistofu.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON