Í kvöld er boðið uppá göngu í miðborg Reykjavíkur sem ber yfirskriftina„Suðupotturinn Reykjavík 1890-1920“ og þar verða fólksflutningar til Íslands fyrr á tímum í brennidepli. Gengið verður um Kvosina og sagðar sögur af aðfluttu fólki, bæði úr íslenskum sveitum og erlendis frá, sem mótuðu bæjarlífið á tímabilinu 1890-1920 þegar Reykjavík breyttist úr smábæ í litla höfuðborg. Fjallað verður um alþjóðlegar rætur borgarinnar og lögð áhersla á að draga fram hvernig erlend menning og íslensk sveitamenning blönduðust saman við staðbundna þætti til að gera Reykjavík að þeirri borg sem hún er. Leiðsögumaður verður Íris Ellenberger lektor í samfélagsgreinum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hún kom í þáttinn.
Við forvitnuðumst um Tangó og tómatar en í Friðheimum fyrir austan fjall verður boðið uppá tónlist argentínska snillingsins Astor Piazzolla. Þar mun nýstofnaður Piazzolla Quintet leika tónlist Piazzolla en tónlist hans er hinn svokallaði nýi tangó (nuevo tango) og er afar áhugaverð samsuða af tangó, djass og klassískri tónlist.
Hringsjá er náms- og starfsendurhæfing fyrir fólk sem vill komast aftur út á vinnumarkaðinn eftir hlé vegna sjúkdóma, slysa eða annarra áfalla. Námið er líka hugsað fyrir fólk með námserfiðleika og/eða litla grunnmenntun. Við fengum Helgu Eysteinsdóttur forstöðukonu Hringsjár í viðtal ásamt tveimur nemendum, þeim Inga Sævari Ingasyni og Elísabetu Maríu Garðarsdóttur.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON