Ef það er eitthvað sem við mannfólkið erum sammála um þá er það mikilvægi svefns. Rannsóknir hafa sýnt að unglingar sem sofa vel eru hamingjusamari, gengur betur í námi, eru ólíklegri til að vera í ofþyngd og sækja síður í áhættuhegðun. Dr. Erla Björnsdóttir sálfræðingur hefur sérhæft sig í svefni og heldur reglulega námskeið um mikilvægi svefns fyrir börn,unglinga og fullorðið fólk, hún kom til okkar í dag.
Er spelt hollara en hefðbundið hveiti? Eru sætar kartöflur hollari en venjulegar kartöflur? Er brauð fitandi? Gréta Jakobsdóttir, doktor í næringafræði, hélt fyrirlestur um daginn sem hún kallaði Matur og mýtur þar sem hún talaði um lífseigar mýtur sem hafa verið áberandi í umræðunni á samfélagsmiðlum og þar af leiðandi um allt. Gréta kom í þáttinn og fór yfir þessar mýtur.
Hjónin Bára Karlsdóttir og Kristján Jóhannsson eiga og reka veitingahúsið Café Riis á Hólmavík. Bára er meistarakokkur og oft er þröngt á þingi á Café Riis þar sem bæði Strandamenn og íslenskir sem og erlendir ferðamenn njóta þess sem þar er á boðstólum. Kristín okkar Einarsdóttir hitti Báru þar sem hún var í óða önn að undirbúa Góugleði sem er vinsæl skemmtun meðal heimamanna og þeirra gesta.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON