Við fengum þá Þorstein B. Friðriksson og Ými Örn Finnbogason til okkar, en þeir kynntust í MR þaðan lá leið þeirra beggja í Háskólann í Reykjavík, þar voru þeir báðir kosnir í stjórn stúdentafélags Háskólans. Það samstarf gekk það vel að eftir að þeir höfðu báðir stundað meistaranám í Englandi og Þorsteinn hafði stofnað sprotafyrirtækið Plain Vanilla þá var Ýmir fyrsti maðurinn sem hann hann bað um að slást með sér í þá ævintýraför sem fjármálastjóri fyrirtækisins. Þeir settu á markað leikinn QuizUp sem náði miklum vinsældum um heim allan, en það gekk ekki allt samkvæmt plani og Plain Vanilla lokaði fyrir tveimur árum. En þeir ákváðu þó að halda áfram samstarfi og stofnuðu, ásamt tveimur öðrum fyrrverandi Plain Vanilla starfsmönnum fyrirtækið Teatime, sem gaf í febrúar út sinn fyrsta leik. Við spjölluðum við þá um þeirra samstarf og þetta nýja fyrirtæki Teatime í þættinum í dag.
Það sköpuðust heilmiklar umræður um trufflu sveppi í matarspjalli okkar á föstudaginn, með Sigurlaugu Margréti og Friðgeiri Inga Eiríkssyni. Í kjölfarið fengum við sendar virkilega skemmtilegar heimildir og upplýsingar um trufflusveppi frá velviljuðum hlustanda, Geir Jóni Þorsteinssyni matreiðslumeistara. Við stikluðum á stóru yfir það efni um þessa merkilegu sveppategund sem kallast á íslensku jarðkeppur, truffla, eða jafnvel tröffla.
Lesandi vikunnar var Jökull Jörgensen hárskeri sem hefur rekið rakarastofu í áratugi við Laugaveg. Hann kom með nokkrar bækur sem hafa haft áhrif á hann í lífinu og svo ræddum við líka um tónlistarsköpun og samstarf hans og söngkonunnar Margrétar Eir, en þau hafa einmitt verið par lengi.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON