Þorbjörg Þorvaldsdóttir er nýtekin við sem formaður Samtakanna '78. Hún er með BA-próf og meistarapróf í almennum málvísindum og er nú í doktorsnámi í íslenskri málfræði við HÍ. Þorbjörg kom í þáttinn í dag og við forvitnuðumst um hana og þessa nýju stöðu hennar hjá samtökunum og hvaða málefni eru í forgrunni þar núna og á næstunni.
Hvert er þitt sjálfsvirði? Það er kannski erfitt fyrir marga að svara því nákvæmlega en áföll og ofbeldi í bernsku geta haft áhrif á sjálfsvirðið út lífið. Guðrún Pálmadóttir ráðgjafi á Akureyri heldur úti vefsíðunni sjáfsvirði.is og heldur námskeið sem hún byggir á eigin reynslu en hún upplifði andlegt ofbeldi í æsku. Við töluðum við Guðrúnu í dag.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks en hún leggur um þessar mundir lokahönd á meistaragráðu í listfræði og starfar sem sjálfstætt starfandi sýningar- og verkefnastjóri. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún er að lesa þessa dagana og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON