Eldri borgarar: Valdefling - Virkni - Lífsgæði, er yfirskrift Tómstundadagsins sem er á föstudaginn kemur. Sérstakt málþing verður haldið í tilefni dagsins og samanstendur af erindum frá eldri borgurum, fagfólki á vettvangi sem og fræðafólki og háskólanemum. Málþinginu er ætlað að skapa samtal milli eldri borgara, fagfólks á vettvangi tómstunda- og félagsmála og háskólasamfélagsins. Árni Guðmundsson, aðjúnkt í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands kom í þáttinn.
Hreinn Halldórsson sem einnig var þekktur sem Strandamaðurinn sterki og fyrir afrek sín í kúluvarpi blés til tónleika í Valaskjálf um helgina í tilefni 70 ára afmælis síns þar sem flutt voru lög og textar eftir hann. Það er ekki víst að margir þekki þessa tónlistarhlið á honum, en hann segist hafa verið með tónlist og vísnagerð í höfðinu alla tíð. Við hringdum austur í Hrein í þættinum í dag og spiluðum lag eftir hann.
Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, var ekki stödd á Ströndum í dag, hún brá sér í höfuðborgina og var hjá okkur í hljóðveri í þetta sinn. Á morgun er Öskudagur og hún sagði okkur sögu hans, enda skrifaði meistararitgerð sína í þjóðfræði um hann.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON