Við sendum út beint úr miðbæ Reykjavíkur í dag,nánar tiltekið frá Skelfiskmarkaðinum, þar sem fór fram formleg dagskrá tileinkuð Degi Íslenskrar tónlistar.
Hvernig gefa tónlistarmenn út sína tónlist í dag? Eru veiturnar eini möguleikinn? Lísa Páls hitti Helga Þór Ingason í hljómsveitinni South River Band, en þeir eru að gefa út sinn sjötta disk. Við heyrðu spjall Lísu við Helga og lagið Ég vinn í útvarpi eftir Ólaf Þórðarson við texta Helga Þórs Ingasonar í flutningi South River Band.
Þeir Bubbi Morthens og Stefán Hilmarsson settust hjá Guðrúnu og Gunnari á Skelfiskmarkaðnum og fóru yfir stöðu íslenskrar tónlistar. Þeir voru sammála um að hún væri nokkuð góð í nýju landslagi í útgáfumálum, en það þyrfti að styðja betur við til að vernda íslenskuna.
Að venju var efnt til þjóðarsamsöngs, en þá var þremur lögum útvarpað í beinni á helstu útvarpsstöðvum landsins og allir landsmenn hvattir til að taka undir, hvar sem þeir eru staddir. Í ár hafa eftirfarandi þrjú lög verið valin: Vikivaki eftir Valgeir Guðjónsson, Hossa, hossa með Amabadama og B.O.B.A. með Jóa Pé og Króla. Með þeim sungu leikskólanemendur úr Öskjuhlíðaskóla og Hjallastefnunni.
Í tilefni dagsins verður efnt til nýrrar herferðar sem ber titilinn #IcelandMusicDay- þar sem öll þjóðin er hvött til að taka virkan þátt í markaðssetningu íslenskrar tónlistar á samfélagsmiðlum og hefja hana til vegs og virðingar á erlendri grundu.
Fyrsta lag þáttarins var Í hjarta þér, Haukur Morthens söng lag Jóns Múla Árnasonar við texta Jónasar Árnasonar.
Umsjón í dag Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson