Björgvin Víglundsson, margreyndur skákmeistari og byggingaverkfræðingur, heimsótti Kristján Örn í þáttinn að þessu sinni. Björgvin sagði að árið 1958, þegar hann var 12 ára gamall, hafi hann verið að fylgjast með og skrá niður skák Friðriks Ólafssonar og Inga R. Jóhannssonar í Landsliðsflokki. Þá hafi Bragi Kristjánsson komið að honum og hvatt hann til að taka þátt í Íslandsmótinu í 2. flokki í skák það árið sem hann og gerði. Það hafið verið upphafið að hans þátttöku í skákmótum.
Björgvin talaði um hversu feykilega mikilvægur Friðrik Ólafsson hafi verið fyrir íslenskt skáklíf og nefnir nokkra samferðamenn hans og þá sérstaklega stórmeistarann Guðmund Sigurjónsson.
Í þættinum kemur fram að Björgvin hefur tvisvar teflt fyrir Íslands hönd á Ólympíuskákmótum. Hann kemur inn á gríðarlega öflugt starf Jóhanns Þóris Jónssonar fyrir skákhreyfinguna, talar um ómannlega taflmennsku Magnúsar Carlsen, uppgang Hans Niemanns sem nú sé loks viðurkenndur á meðal þeirra bestu í heimi. Björgvin talar um árangur Vignis Vatnars á skákmótum að undanförnu og þeirri trú sinni að hann geti náð langt. Hann segir að næstu skref Vignis hljóti að vera að tefla á sterkum skákmótum og þá helst á mótum sem hann teflir vel upp fyrir sig. Björgvin lýsir hugmynd sinni um opna mótaröð með háu gólfi þar sem útreikningur stiga ræður því hver fær úthlutað hæstu peningastyrkina frá skákhreyfingunni en stórmeistaralaunin munu heyra sögunni til eftir næstu áramót. Hann telur jafnframt að val í landsliðið eigi að ráðast af getu og virkni á sérstökum mótum meðal þeirra bestu. Margt annað kom til tals í þættinum sem heyra má í spilaranum.