Nú þegar jólin nálgast þá örlar á öfund hjá Lenu Magnúsdóttur, þáttastjórnanda hlaðvarpsins Ekkert rusl, því hún upplifir að konur í kringum hana komi í hamingjukasti úr verslunarferðum með nýja skó, skart og föt. Hún er búin að hemja sig allverulega árið 2022 og kaupa ekkert nýtt nema samfellu sem hana bráðvantaði þegar hún var á leið í brúðkaup og áttaði sig á því að kjóllinn var hálfgagnsær og gamla samfellan hennar spratt af henni. Lena er mannleg og spennt fyrir því að kaupa sér eitthvað nýtt og fallegt á nýju ári. Hún talar um þetta í nýjasta þættinum og segir Margréti Stefánsdóttur, hinum þáttastjórnandanum að hún hafi oft séð föt með merkimiðanum á fatamörkuðum því fólk kaupi kannski flík í einhverju kaupæði sem kemur kannski ekki nógu vel út yfir brjóstin o.sfrv. Þær ræða í því samhengi föt og brjóst.
Magnús Jónsson, fyrrverandi veðurstofustjóri og pabbi Lenu, er viðmælandi þáttarins en þegar hann var að læra veðurfræði þá var talið að við værum að fara inn í ísöld og aukin koltvísýringur í andrúmsloftinu væri í því samhengi til góðs og myndi seinka því ferli eða koma í veg fyrir það. Raunin varð vissulega önnur – ísöld var fjarri lagi og nú eru langflestir veðurfræðingar sammála um það að jörðin sé að hitna og það um of – og alltof hratt.