Margrét Sigrún Sigurðardóttir, dósent í Viðskiptafræðideild og stjórnarmeðlimur í Kennsluakademíu opinberu háskólanna og Róbert H. Haraldsson, Sviðsstjóri kennslumála spjalla um Kennsluakademíuna, hvað hún er, fyrir hverja og hvernig er hægt að sækja um. Háskóli Íslands tók forystu um stofnun Kennsluakademíunnar 2021 en ásamt honum standa Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Hólum og Háskólinn á Akureyri að Kennsluakademíunni sem styrkt er af stjórnvöldum. Fyrstu meðlimir Kennsluakademíunnar voru teknir inn í nóvember 2021 og samanstendur fyrsti hópurinn af 11 kennurum sem eiga nú sæti í Kennsluakademíunni.
Margrét Sigrún átti þátt í samtali um stofnun Kennsluakademíu frá upphafi en kúplaði sig út úr því samtali um leið og hún ákvað að sækja um í Kennsluakademíuna vorið 2021. Hún lýsir umsóknarferlinu, hvaða skref þarf að taka og hver ávinningurinn er fyrir kennara að gerast meðlimir í Kennsluakademíunni.
Kennsluakademían er vettvangur að norrænni fyrirmynd sem ætlað er að stuðla að kennsluþróun. Meginmarkmið með Kennsluakademíunni er að efla samtal um kennslu og kennsluþróun innan og milli háskóla og lýsir Róbert þeim viðmiðum sem kennarar þurfa að uppfylla ef þeir hafa hug á að sækja um. Hann segir frá því hvernig sæti í Kennsluakademíunni er ætlað að umbuna þeim kennurum sem nú þegar draga vagninn í kennslu.
Hugmyndarfræði Kennsluakademíu opinberu háskólanna byggist á alþjóðlegri áherslu á fræðimennsku í kennslu (Scholarship of teaching and learning eða SoTL).
Með Kennsluakademíunni er þeim kennurum sem hafa lagt sérstaka alúð við kennslu , haft nám nemenda að leiðarljósi og unnið markvisst að kennsluþróun veitt viðurkenning fyrir sín störf.
Kennarar sem hafa hug á að fræðast um Kennsluakademíu opinberu háskólanna og jafnvel sækja um hafa mikinn ávinning af því að hlusta á þennan þátt.
Nánari upplýsingar á :https://kennsluakademia.hi.is/