Ég datt í að semja nokkur ljóð um afar streituvekjandi umhverfikvíðann minn og ég fór í kirkjugarð til að velta tilgangi lífsins fyrir mér.
Það er aldrei langt í þjáða unglinginn
Góðar stundir
LJÓÐ
Ertu ekki með viðbótarlífeyrissparnað?
Nei
Heyrðu góða mín, hvernig ætlaru að hafa það í ellinni?
Ég held ég verði ekki gömul
nú?
Já ég held að heimurinn verði dauður
Áður en ég verð gömul
Hvaða neikvæðnis raus er þetta í þér?
Ég hef aldrei heyrt aðra eins afsökun fyrir því að greiða ekki í sparnað!
Þú veist að þú tapar mjög miklu á því að spara ekki
Ég lifi í núinu
Ég nenni ekki að hanga á krónum sem verða verðlausar og horfnar
Þegar ég ætla, kannski, að nota og njóta
Ég er til í dag
Ég veit ekkert hvað gerist á morgun
Svona svona, ástand mála er nú ekki svona slæmt
Jú reyndar, og það er ykkur að kenna
Okkur ?
Hvað gerðum við?
Þið keyrðið útum allt, krefjist nýrra bíla, amerísks þvottaefnis sem mengar höfin, þið flokkið ekki, þið borðið bara það sem ykkur langar til að borða þegar ykkur langar í það, þið dettið í það í útlöndum þegar ykkur hentar og þið eigið alltof mikið af öllu
Nei þetta get ég ekki fallist á!
Við vorum nýtna kynslóðin
Þess vegna lögðum við fyrir
Svo við getum haft það gott í ellinni
já, endilega hafðu það notalegt í ellinni
En þú skalt vita eitt
Þín elli er á kostnað minnar elli
Þitt æviskeið kostaði mig mína framtíð
Svo viltu að ég láti þig líka fá aurana mína og krónur?