Hér er á ferðinni upptaka frá afmælisviðburði Flugvarpsins í tilefni af 5 ára afmæli hlaðvarps Íslendinga um flugmál. Ljúfir tónar jasskvintetts Jóns Harðar flugstjóra tóku á móti gestum og á sviðinu var tekið hressilegt spjall um flugmálin við nokkra frábæra viðmælendur og sögur sagðar. Fyrst stigu á sviðið tveir menn sem hafa með orðum og gerðum verið mikið í umræðunni síðustu vikurnar, þeir Jón Þór Þorvaldsson formaður FÍA og Eyjólfur Ármannsson ráðherra flugmála. Að því búnu ræddu þau Linda Gunnarsdóttir yfirflugstjóri Icelandair og Matthías Sveinbjörnsson forseti Flugmálafélagsins um ógnir og tækfæri í flugheiminum. Baldvin Már Hermannsson forstjóri Air Atlanta var svo aðalgestur kvöldsins og fór yfir ótrúlega öfluga starfsemi félagsins víða um heim, umbreytingu félagsins á síðustu árum og hvernig framtíðarhorfurnar blasa við honum. Að endingu steig Jóhann Skírnisson fyrrum flugstjóri og "bush pilot" á svið og sagði nokkrar skemmtisögur.