Hanna Arnórsdóttir dýralæknir hjá dýraspítalanum í Garðabæ kom í þáttinn í dag. En mikið heyrist í kringum áramótin um hræðslu og streitu í gæludýrum tengdum flugeldum og svo hefur verið fjallað um í fjölmiðlum undanfarið að það geti verið sniðugt að spila rólega tónlist, eða jafnvel að hafa útvarpið í gangi fyrir dýr sem þurfa að vera langtímum ein heima. Hanna sagði frá aðskilnaðarkvíða gæludýra, hvað sé ráðlagt að gera við honum, sem getur verið mismunandi eftir því hvaða dýr um ræðir og hún er nýkomin af alþjóðlegri dýralæknaráðstefnu, því kom hún með glóðvolgar upplýsingar úr nýjustu rannsóknum á þessu sviði.
Við skoðum nytjamarkaði næstu daga, hvað er að seljast af notuðum húsgögnum, hvað selur Antiksalinn helst í dag og hvað er vinsælast hjá Góða Hirðinum og hvaða vörur vilja þau fá í sitt hús. Þessi markaður notaðra húsgagna og hluta, gengur í gegnum tískubylgjur og misgóð tímabil. Núna virðist unga fólkið koma í meiri mæli til að velja notað og það er partur af lífsstíl sem gengur út á að velja notað og stuðla að umhverfisvernd. Við byrjuðum á því að heimsækja Góða Hirðinn í dag.
Lyfjastofnun Íslands er eina lyfjastofnunin í Evrópu sem gefur almenningi möguleika á því að tilkynna um lyfjaskort. Stofnunin birtir líka hlaðvarp þar sem almenningur getur sótt upplýsingar um ýmis lyfjatengd mál. Bergljót Baldursdóttir heimsótti Rúnu Hauksdóttur Hvannberg forstjóra Lyfjastofnunar á Heilsuvaktinni í dag.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON