MANNLEGI ÞÁTTURINN ÞRIÐJUDAG 12.nóv 2019
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUÐFINNUR SIGURVINSSON
Ljósafoss Ljóssins upp Esjuna verður gengin núna 16.nóvember og nú eru 10 ár frá því gengið var fyrst. Guðný Ragnarsdóttir hjúkrunarfræðingur og tveggja barna móðir hefur gengið fyrir Ljósið 550 kílómetra á samtals 19 dögum og byrjaði stuttu eftir að hún kláraði endurhæfingu hjá Ljósinu og með göngunni vill hún vekja athygli á mikilvægi starfsseminnar. Guðný tók þátt í Ljósafossinum í fyrra og segir hann vera mjög táknrænan fyrir endurhæfingu en með því að ganga upp á Esjuna sé mikilvægt að hver og einn fari á sínum hraða. Guðný segir að það að greinast með krabbamein sé mikið áfall og maður óski þess heitast að komast aftur inn í sitt hversdagslíf og verða virkur samfélagsþegn.
Hvernig komumst við út í lífið á ný eftir áfall? Hafa öll áföll sömu áhrif á okkur og getur gamalt áfall tekið sig upp með nýju? Sigurbjörg Bergsdóttir ráðgjafi hjá Lausninni er gestur Mannlega þáttarins í dag og við ætlum að ræða áföll í mismunandi myndum og læra að þekkja einkennin, því stundum gerir fólk sér ekki grein fyrir að það hafi í reynd orðið fyrir áfalli.