Við hringdum vestur á Strandir í okkar konu Kristínu Einarsdóttur og ræddum við hana um áramótin og áramótaskaupið. Kristín hefur rannsakað skaupið og efnistök í mörg ár og skrifað um húmor landans.
Póstkort dagsins frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni sagði okkur frá sérkennilegu jólahaldi á Spáni fyrir gamlan Seyðfirðing þar sem fólk dansar á ströndinni á jóladag, tekur ekki upp jólagjafir fyrr en á þrettándanum. Ennfremur segir af sérkennilegum siðum um áramót þar sem aðalatriðið er að gleypa tólf vínber á miðnætti, eitt við hvert klukkuslag þegar pósthúsklukkan í Madrid slær tólf.
Við rifjuðum upp áhugavert efni úr þættinum frá liðnu ári og af því að Rás 1 mun huga að andlegu heilsunni í janúar, heyrðum við viðtal við Guðrúnu Pálmadóttur ráðgjafa á Akureyri um sjálfsvirði og með henni veltum við fyrir okkur spurningunni „Hvert er þitt sjálfsvirði?“. Það er kannski erfitt fyrir marga að svara því nákvæmlega en áföll og ofbeldi í bernsku geta haft áhrif á sjálfsvirðið út lífið. Guðrún heldur úti vefsíðunni sjáfsvirði.is og heldur námskeið sem hún byggir á eigin reynslu en hún upplifði andlegt ofbeldi í æsku. (Viðtalið var í Mannlega þættinum 11.mars ?19)
Hrefna Guðmundsdóttir er í hópi fólks sem ætlar að styrkja björgunarsveitirnar með beinum fjárframlögum, í stað þess að kaupa flugelda og hvetja aðra til þess sama. Við heyrðum í Hrefnu í lok þáttar.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON