Ný rannsókn bendir til þess að svefnleysi og svefntruflanir séu arfgengar. Þeir sem eiga erfitt með svefn eru sem sagt líklegri en aðrir til að eiga foreldra sem hafa glímt við sömu svefntruflanir. Meðal tólf höfunda greinar sem birt var í fagtímaritinu Sleep Medicine eru tveir íslenskir læknar, hjónin Þórarinn Gísalson og Bryndís Benediktsdóttir. Þau hafa um árabil veið í forystu í svefnrannsóknum hér á landi og hafa tekið þátt í fjölda alþjóðlegra rannsókna. Bryndís kom í þáttinn í dag og segir okkur frekar frá arfgengi svefntruflana og þessum niðurstöðum.
Freyr Eyjólfsson, sem var lengi vel útvarpsmaður hér á RÚV, hefur hafið störf sem samskiptastjóri hjá Terra umhverfisþjónustu hf. Terra hefur starfað við flokkun og endurvinnslu efna frá árinu 1984 og vinnur með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum í endurvinnslu og umhverfisvænni úrgangsstjórnun með áherslu á að skilja ekkert eftir, að koma öllum þeim efnum sem falla til í viðeigandi farveg og aftur inn í hringrásarhagkerfið. Við fengum Frey til að segja okkur frekar frá þessu nýja starfi sínu og hringrásarhagkerfinu í þættinum.
Þegar við eldumst minnkar dagleg þörf okkar fyrir hitaeiningar. Á hverjum áratug eftir miðjan aldur minnkar orkuþörf karla um 160 hitaeiningar, en kvenna um 100 hitaeiningar. Hundrað hitaeiningar er kannski ekki mikið, en ef fólk heldur áfram að borða jafn mikið og áður þyngist það smátt og smátt. Fólk um sjötugt hefur svipaða orkuþörf og 7-11 ára barn. Þetta segir Ingibjörg Gunnarsdóttir næringarfræðingur á LSH, en hún flutti nýlega fyrirlestur um næringu eldra fólks á starfslokanámskeiði spítalans. Ingibjörg kom í þáttinn í dag.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON