Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir fjölmiðlakona, hefur starfað í sjónvarpi, útvarpi og nú skrifar hún meðal annars um bíla í Morgunblaðið. Hún segist vera forfallinn tækja- og adrenalínsjúklingur með flugbakteríu á lokastigi. Með tilliti til þess er hún komin nú í draumastöðu þar sem hún hefur tækifæri til að prófa allar týpur af bílum og rýna í kosti þeirra og galla. Ég rak til dæmis augun í grein hennar um nýjan rafmagnsbíl frá Mercedes Benz. Sigríður Elva kom í þátinn í bíladelluspjall um nýjustu rafbílana og sagði okkur aðeins frá fisflugi.
Í Reykjavíkurmaraþoninu er hægt, eins og reyndar undanfarin ár, að hlaupa og safna fé fyrir góðan málstað. Anna Sigrún Baldursdóttir ætlar að hlaupa til styrktar Gleym-mér-ei Styrktarfélag, en það félag er með þann tilgang að halda utan um styrktarsjóð sem notaður er til að styrkja ýmis verkefni í tengslum við missi barns á meðgöngu og í/eftir fæðingu. Anna Sigrún kom í þáttinn og sagði sína sögu, en hún missti barn við fæðingu árið 1995.
Golfsumarið er í fullum gangi, golfvellir landsins koma einstaklega vel undan vetri og golkylfum er sveiflað af kappi um allt land með það markmið að koma litlu hvítu kúlunni ofan í þar til gerðar holur. Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands kom í þáttinn og fór yfir stöðuna í golfi á Íslandi.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON