Félagsráðgjafaþing fer fram á morgun Hótel Hilton Nordica Reykjavík á vegum Félagsráðgjafafélags Íslands, Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, ÍS- Forsa og Rannsóknaseturs í barna - og fjölskylduvernd yfirskriftinni: Börnin geta ekki beðið. Þetta er sjötta Félagsráðgjafaþingið og eru börn og fjölskyldur í brennidepli í ár. Þar verða fjöldi erinda flutt og haldin verður umræðustofa undir yfirskriftinni Óhreinu börnin hennar Evu. Við fengum þær Sigrúnu Harðardóttur, lektor við félagsráðgjafardeild á Félagsvísindasviði HÍ og Ingibjörgu Karlsdóttur, félagsráðgjafa á BUGL, í þáttinn til að segja frá þinginu.
Leikverkið Það sem við gerum í einrúmi segir frá fjórum ólíkum einstaklingum sem búa í sömu blokkinni. Öll hafa þau einangrast, en þörfin fyrir nánd rekur þau fram á gang og inn í líf hvors annars. En þó að maður sé manns gaman fer margt öðruvísi en ætlað er. Verkið fjallar um einmannaleika og félagslega einangrun á einn eða annan hátt. Þær Sara Martí Guðmundsdóttir, leikstjóri og annar höfunda og leikkonan Ragnheiður Steindórsdóttir komu í þáttinn og ræddu um einmannaleika, sem svo margir kljást við.
Kontóristinn er ný pistlaröð þar sem Steinar Þór Ólafsson skoðar vinnumenningu af ýmsu tagi, í fyrstu tveimur pistlunum fjallaði hann um vinnurými ýmiskonar og svo þróun vinnutíma. Í þriðja pistlinum fjallar hann um fundi og fundarmenningu; viðhorf okkar til þeirra og hvernig megi fá meira út úr þeim.
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG MAGNÚS R. EINARSSON