Einar Óli Sigurðarsson varð fyrir alvarlegum heilaskaða eftir heilablæðingar fyrir tveimur árum, þá 33gja ára. Eftir það getur hann hvorki hreyft sig né tjáð. Fyrir um ári voru fluttar fréttir af stöðu Einars Óla, þar sem hann hafði verið í átta mánuði á Grensásdeild, endurhæfingardeild Landspítalans, sem er ekki langtímaúrræði, en eini valkosturinn sem honum stóð til boða í framhaldi var að vera vistaður á hjúkrunarheimili, þar sem meðalaldurinn er áttatíu og þrjú ár. Nú, ári eftir þessar fréttir er staðan enn sú sama. Aðalheiður Bjarnadóttir, móðir Einars Óla, kom í þáttinn og fór með okkur yfir söguna, en engin lausn virðist vera í sjónmáli. Í kvöld verða haldnir styrktartónleikar fyrir Einar Óla í Guðríðarkirkju, en fyrir þá sem myndu vilja leggja eitthvað að mörkum en komast ekki á tónleikana þá bendum við á styrktarreikninginn, 0545-14-001041, kt. 650519-0790, en fjölskyldan er að safna fyrir útborgun í notuðum bíl til að auðvelda þeim við að koma honum á milli staða.
Þegar maður hlustar á Flamenco tónlist tengir maður hana ekkert endilega við íslenska tónlistarmenn svona í fyrstu en í Grenada á Spáni býr íslendingurinn Reynir Hauksson og hann starfar sem Flamenco gítarleikari. Við spurðum hann útí Flamenco og hvernig það er fyrir íslending að starfa sem Flamenco gítarleikari í fullu starfi á Spáni.
Steingrímur Sævarr Ólafsson fyrrum fréttamaður og fjölmiðlaráðgjafi var lesandi vikunnar hjá okkur í dag og við spurðum hann útí bækurnar á náttborðinu, hvað hann er að lesa þessa dagana og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hann í gegnum tíðina.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON