Ágústa Margrét Arnardóttir er fimm barna móðir á Djúpavogi, hún rak hönnunarfyrirtæki þangað til fyrir tveimur árum. Þá ákvað hún að hvíla fyrirtækið og settist í 3. bekk með syni sínum auk þess að eignast fimmta barnið. Eftir tæpa fjóra mánuði með syni sínum í skólanum segir hún að hugsanaháttur hennar gagnvart fjölskyldunni og uppeldi barna hennar hafi gjörbreyst. Nú undirbýr Ágústa útgáfu barna- og ungmennatímarits. Við hringdum í Ágústu og heyrðum þeirra sögu og af barnatímaritinu Hvar sem hún hyggur á að gefa út á næstunni.
Það hefur kyngt niður snjó fyrir austan og Magnús Már Þorvaldsson okkar maður þar, var á línunni í þættinum í dag. Við töluðum við hann um fannfergi, heimildarmyndina 690 Vopnafjörður sem er tilnefnd til Edduverðlaunanna, loðnuleysi og Cabarett.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Þórdís Helgadóttir rithöfundur og leikskáld. Fyrsta bókin hennar, smásagnasafnið Keisaramörgæsir, kom út hjá Bjarti fyrir síðustu jól og leikrit hennar Þensla var nýverið sýnt í Borgarleikhúsinu. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu, hvað hún hefur verið að lesa og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON