Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var ævintýramaðurinn Magne Kvam. Hann starfaði sem grafískur hönnuður og hreyfimyndasmiður í 18 ár en kúvendi svo ásamt eiginkonu sinni, sem hafði unnið við kvikmyndagerð, og fóru þau á fullum krafti útí hjólamennsku. Þau bjóða nú upp á hjólaferðir um Ísland, hafa unnið að uppbyggingu hjólaleiða með sveitarfélögum og leiða Íslendinga og ferðamenn upp um allt, í hvers kyns veðri, á hjólum. Við forvitnuðumst um hvar hann er fæddur og uppalinn, æskuna og ferðalagið í gegnum lífið og svo auðvitað hjólamennskuna.
Í matarspjallinu okkar í dag með Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur leitaði hugurinn eins og svo oft áður til Ítalíu. Við slógum á þráðinn þangað til Svavars Halldórssonar fyrrverandi fréttamanns. Hann er þar í þeim dásamlega tilgangi að kynna sér ítalska matarmenningu frá a-ö.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON