Þau sem til þekkja segja að hláturjóga sé miklu magnaðra hjálpartæki í baráttunni við kvíða og depurð en kannski mætti ætla. Ásta Valdimarsdóttir hláturjógakennari og hláturambassador var gestur þáttarins í dag. Hún útskýrði þetta fyrirbæri sem hláturjóga er og sagði frá alþjóðlega hláturjógadeginum sem er á sunnudaginn.
Við fengum tvær ungar listakonur í heimsókn, útskriftarnema úr Listaháskólanum, þær Írisi Indriðadóttur nemanda í vöruhönnun, en hún skoðar tyggigúmmíið frá öllum hliðum í verkefninu „Í tygjum við tyggjó“. Tyggjó inniheldur rúmlega 30.000 mismunandi efni og uppistaða þess eru plastefni. Og svo er það Jóhanna Rakel en hennar lokaverkefni kallast „ Ungir fjárfestar“ og er gjörningur sem á að varpa ljósi á söluvæðingu samtímans. Hún mun setja upp sölubás á sýningunni og bjóða fólki að kaupa hlut til að styrkja starfsemi Ungra fjárfesta. Þær Íris og Jóhanna komu í þáttinn og fræddu okkur um tyggigúmmí og söluvæðingu, en útskriftarsýning myndlistardeildar og hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands opnar á laugardaginn á Kjarvalsstöðum.
Við fengum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni í dag og í þetta sinn fjallaði um það bil 95% póstkortsins um pólitík, enda nýafstaðnar þingkosningar þar í landi. Magnús kafaði í söguna og sagði frá Francotímanum sem hefur enn í dag djúp áhrif á spænska þjóðarsál og lék hlutverk í kosningabaráttunni. Hin fimm prósentin fjölluðu svo um sumar, sól og ódýrt fæði.
Júróvisjón nálgast óðfluga og á morgun leggur íslenski hópurinn af stað til Ísrael - við tókum stöðuna í lok þáttar. Er allt klárt? Er búið að pakka? Er okkur enn spáð 6. sæti af veðbönkum? Felix Bergsson er fararstjóri hópsins og það kemur í hans hlut að sjá til þess að allt fari vel. Felix kom í þáttinn í dag.
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG MARGRÉT BLÖNDAL