Þann 17. júní 1944 var lýðveldi stofnað á Þingvöllum. Þátturinn "Bananar á Þingvöllum" er sjálfsætt framhald af þættinum “Bananar á Kárahnjúkum“ þar sem fjallað var um stöðu Íslands á 20. öld sem smáríkis sem þarf að hafa sig allt við til að sporna gegn erlendum áhrifum. Í þeim þætti var fjallað um virkjanaframkvæmdir og stóriðju og hugtakið bananalýðveldi kom við sögu en það hefur gjarnan verið notað til að lýsa ríkjum sem illa geta spornað við áhrifum erlendra aðila vegna smæðar sinnar eða veikrar stjórnskipunnar.
Þegar orð eins og bananalýðveldi er notað, vísar það vissulega til lýðveldisstofnunarinnar, en það vísar jafnframt afar sterkt til ákveðinnar heimsskipunar, þar sem stórir hlutir heimsins, sem gjarnan er vísað til sem þriðja heimsins, þjóna hagsmunum annarra heimshluta, sem hlýtur þá að vera fyrsti heimurinn. Staða Íslands í þessu stigveldi sem er í raun afsprengi nýlenduvæðingar heimsins hefur löngum verið óljós þó fáir efist sennilega um að Ísland sé í dag meðal velmegandi ríkja, að minnsta kosti eins og sakir standa. Orð eins og nýlenda, hjálenda og dullenda eru stundum færð til bókar í tilraunum til að ramma inn stöðu Íslands í heiminum og í þessum þætti munum við rekja þessa þræði nánar. Það má því segja að hér sé lýðveldisstofnunin ekki svo mikið til umfjöllunar, miklu heldur fullveldi Íslands og staða þessa litla lýðveldis í heiminum.
Tæknimaður er Einar Sigurðsson, Guðni Tómasson aðstoðaði við dagskrárgerð og viðmælendur þáttarins eru Ann-Sophie Grimaud (borið fram Grímó), listfræðingur, Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðingur, Kristinn Schram þjóðfræðingur, Kristín Svava Tómasdóttir sagnfræðingur og ljóðskáld sem jafnframt les úr verki sínu Skrælingjasýningin og Sara S. Öldudóttir sýningarstjóri listahátíðarinnar Cycles.