Hvað veldur því að kvikmyndagerðarmenn, meira að segja þeir sem búa hinum megin á hnettinum, líta til Vestfjarðakjálkans í leit að erki-þorpinu, þorpinu sem heldur fólki föngnu í klóm örvæntingar? Er skýringarinnar ef til vill að leita í þeirri mynd sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa dregið upp af íslenskum þorpum í gegnum tíðina? Hvernig hafa sveit, þorp, bæir og borg(ir) birst á hvíta tjaldinu og hvaða breytingum hefur birtingarmynd slíkra byggða hefur tekið í gegnum tíðina. Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur á Akureyri staldrar við þorpið sem sögusvið í verkefni sem hún nefnir: Sami gamli þorparinn. Brynhildur kom í þáttinn.
Kynjaþing 2019 fór fram á laugardaginn í Norræna húsinu. Á þinginu komu saman félög og fólk sem starfa að jafnrétti, kvenréttindum, hinsegin réttindum, mannréttindum og stjórnmálum. Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands og Sigrún Bragadóttir hannyrðapönkari komu í þáttinn og sögðu frá því sem þar fór fram.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Björn Halldórsson rithöfundur og bóksali. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá honum, hvað hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hann í gegnum tíðina.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON