Mottumars hefst á morgun með opnum ljósmyndasýningunnar Meiri Menn í Kringlunni, á Glerártorgi, í Reykjanesbæ, á Selfossi og Ísafirði. Á sýningunni deila 8 karlmenn víðs vegar af landinu reynslu sinni af krabbameini líkt og konur gerðu í Bleiku slaufunni 2018. Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsinskom í þáttinn og með henni var Þráinn Þorvaldsson, sem hefur verið að glíma við blöðruhálskirtilskrabbamein, en hann deildi sögu sinni með okkur.
„Komdu sæl, getur verið að þú hafir verið á hótelinu Club Romantica á Mallorca árið 1976?“ Friðgeir Einarsson fór til Mallorca síðastliðið haust að leita að konu sem hann þekkir ekki neitt. Friðgeir keypti þrjú ljósmyndaalbúm á útimarkaði í Brussel fyrir rúmum tíu árum og nú hefur hann samið leikrit um leit sína að eiganda albúmanna og það verður frumsýnt í kvöld. Við fengum Friðgeir til okkar í þáttinn, ásamt Snorra Helgasyni, sem stendur með honum á sviðinu í Borgarleikhúsinu.
Í dag fluttum við fimmta pistil Kontóristans, þar sem Steinar Þór Ólafsson fjallar um vinnumenningu eins og hann hefur gert undanfarna fimmtudaga í Mannlega þættinum. Í hugvekju vikunnar fjallaði Steinar um fjarvinnu. Tapas í hádeginu og ströndin eftir vinnu eða pollurinn á Akureyri í stað Sílikondalsins í Bandaríkjunum. Virkar þetta? Því velti Kontóristinn fyrir sér í dag.
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG MARGRÉT BLÖNDAL