Í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands á laugardaginn verður opið hús að Aðalstræti 10, þar sem gestum verður boðið uppá aðstoð við að klæðast eigin þjóðbúningum fyrir fullveldishátíðahöldin sem verða við Stjórnarráðið klukkan eitt. Félagar í Heimilisiðnarfélaginu verða í sínu fínasta pússi og aðstoða gesti við til dæmis, að festa höfuðbúnað og skotthúfur og hnýta peysufataslifsi, og Heimilisiðnaðarfélagið hvetur alla sem vettlingi geta valdið til að mæta við þessa athöfn við Stjórnarráðið, í þjóðbúningum. Guðrún fór og spjallaði við Margréti Valdimarsdóttur, formann félagsins.
Teikning er ekki aðeins áhrifaríkari en skrift við að efla langtímaminni heldur er hún einnig gagnleg við úrvinnslu tilfinninga, segir Unnur Óttarsdóttir listmeðferðarfræðingur. Í rannsókn sem birtist nýlega í tímaritinu Art Therapy OnLine kemur fram að þáttakendur mundu teikningar mun betur en skrifuð orð, eða fimm sinnum betur. Unnur kom í þáttinn og sagði frá þessu og listmeðferð.
Magnús R. Einarsson var með pistil í þættinum í dag. Í þetta sinn sagði hann frá þeirri umræðu sem er í gangi í Evrópu um hnignun lýðræðisins. Hann sagði frá greinum og bókum sem hafa verið ritaðar um málefnið og eru áhugaverðar fyrir alla þá sem láta sig lýðræði varða.
Umsjón Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson