Föstudagsgesturinn okkar fæddist í lítilli risíbúð að Lækjargötu 12a, sonur hjónanna Bjarna Böðvarssonar og Láru Magnúsdóttur sem voru bæði mikið tónlistarfólk. Móðir hans var ein fyrsta dægurlagasöngkona landsins og söng með Dómkirkjukórnum í marga áratugi. Faðir hans var hljómsveitarstjóri og hljómsveit hans sem bar nafn hans var landsfræg á sínum tíma. Hann hóf ekki tónlistarferil sinn sem söngvari, heldur sem trommuleikari, en þegar hann var 16 ára söng hann ásamt Sigurði Ólafssyni inn á lakkplötu tvö lög sem komu út áratugum seinna á safndiski í tilefni 75 ára afmælis hans. Um þessar mundir fagnar hann 85 ára afmælinu með stórtónleikum í Hörpu. Þetta er auðvitað Raggi Bjarna, föstudagsgestur Mannlega þáttarins í dag.
Íslendingum finnst smörrebrauð alveg sérstaklega gott og það voru Danir sem kenndu okkur að meta það lostæti: Góð máltíð á einni brauðsneið. Samkvæmt nákvæmum rannsóknum Mannlega þáttarins, er það víst síld, lax, roastbeef og rauðspretta sem eru vinsælasta áleggið hjá Dönum. Við gerðum einnig mjög nákvæma úttekt á því hvað Íslendingum finnst best á smörrebrauðið. Í matarspjalli dagsins ræddum við og Sigurlaug Margrét við Jakob Jakobsson sem rekur Jómfrúnna í Lækjargötu.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON