Svavar Knútur kom til okkar sem föstudagsgestur að þessu sinni. Samsöngur er eitt af hans áhugmálum, að virkja fólk til að syngja saman. Það er kannski ekki beint okkur í blóð borið Íslendingum, margir eru frekar feimnir við að syngja upphátt td bara á miðjum vinnudegi. Kannski var þetta algengara hér áður, maður minnist skólaferða í rútum og í skíðaskálum, einn með gítar og allir sungu, rútubílasöngvana svokölluðu. Hvernig er þetta í dag? Er ekki einmitt tilefni í dag til að koma saman og syngja, gleyma sér aðeins. Við töluðum um samsöng við Svavar og hann greip í gítarinn og hvatti hlustendur heima til að taka undir.
Það er nú bara þannig að fleiri eru meira heima um þessar mundir en vanalega, til dæmis í sóttkví. Það er þess vegna tilvalið að henda í góða köku, elda góðan mat og hafa það eins huggulegt og maður getur. Jói Fel er jafnvígur á hrærivélina og útigrillið, hann kom til okkar í matarspjallið í dag og gaf hlustendum hugmynd að helgarmat og góðri köku og ekki síst góðu kökukremi.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON