Það er oft erfitt að horfa fram til jóla þegar ástvinur hefur fallið frá og aðventa er tími sem er hvað þyngstur þeim sem hafa misst frá sér nákomna. Þess vegna hafa samtökin Ný dögun í samvinnu við Landspítala, Ljónshjarta, þjóðkirkjuna efnt til samverustundar til að bjóða öllum sem eiga um sárt að binda vegna ástvinamissis til samverustundar í Háteigskirkju í kvöld klukkan tuttugu. Rósa Kristjánsdóttir djákni kom í þáttinn og sagði nánar frá samverustundinni.
Haukur Gröndal tónlistarmaður kom í þáttinn en til stendur að gefa út tónlist á vínýl í takmörkuðu upplagi með vísun í ljósmyndabók Spessa Hallbjörnssonar sem heitir 111, en allar ljósmyndirnar eru teknar í Breiðholtinu í póstnúmeri 111. Spessa fannst tónlist hljómsveitarinnar Clash passa við andrúmsloft myndana og fékk því Hauk til að útsetja nokkur lög í anda lúðrasveita frá New Orleans fyrir opnun ljósmyndasýniningar hans á Listahátíð í vor. Haukur sagði frá þessu verkefni í þættinum.
Sjálfsdýrkun hefur orðið æ meira áberandi á samfélagsmiðlum á þeim fimmtán árum sem þeir hafa verið á netinu. Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af? Eða er þetta aðeins ný birtingarmynd á narsissisma sem hefur alltaf blundað í mannfólkinu? Magnús sagði frá rannsóknum sem hafa verið gerðar á þessu fyrirbæri í pistli undir lok þáttarins.
Umsjón Magnús R. Einarsson og Gunnar Hansson