Yfir 1000 stúlkur taka þátt í viðburðinum Stelpur og tækni sem haldinn er í sjötta sinn. Viðburðurinn verður nú fjölmennari en nokkru sinni fyrr en tilgangurinn er að kynna möguleika í tækninámi og tæknistörfum fyrir stúlkum í 9. bekk grunnskóla, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tækni og opna augu þeirra fyrir framtíðarmöguleikum sem tæknigreinar bjóða. Við fengum þær Margréti H. Þóroddsdóttur, verkefnastjóra atvinnulífstengsla hjá HR og Rakel Óttarsdóttur, framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs Arion banka í þáttinn til að segja okkur frekar frá.
Þjóðlagahátíðin Vaka var fyrst haldin á Akureyri árið 2014 en er nú haldin í höfuðstaðnum í fyrsta sinn. Dillandi þjóðlagatónlist frá Evrópu og fjörugir þjóðdansar munu fylla gamla niðursuðudósaverksmiðju í Borgartúni og einnig verða áhugaverðar vinnustofur settar upp og markmiðið er að styrkja þjóðlagatónlistarsenuna á Íslandi. Við hringdum í Linus Orra Cedarborg í þættinum.
Hrannar Björn Arnarsson er nýkjörinn formaður Norræna félagsins í Reykjavík. Hann var lengi aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og framkvæmdastjóri þingflokks Jafnaðamanna í Norðurlandaráði svo fátt eitt sé nefnt. Hrannar kom í þáttinn og við spurðum hann meðal annars: Hvað gerir Norræna félagið á Íslandi?
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR