Um helgina fór fram á Akureyri, Lýsa -rokkhátíð samtalsins og mörg áhugaverð málefni rædd og erindi flutt, eins og við heyrðum í Samfélaginu síðast liðinn föstudag. Helga Hrönn Óladóttir umdæmisstjóri Streituskólans og Streitumóttökunnar á norðurlandi flutti erindi á Lýsu, um muninn á streitu, kulnun og sjúklegri streitu. Hún kynnti rannsakaðar forvarnaraðferðir og úrlausnir og ný hugtök úr streitufræðunum eins og til að mynda daghvíld á vinnustað. Við hittum Helgu í Hofi og fengum hana til að segja okkur frá þessu.
Annan veturinn í röð bjóða Píeta-samtökin feðrum, bræðrum, sonum og vinum þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi til fundar annan fimmtudag í hverjum mánuði. Það er Bjarni Karlsson prestur við Sálgæslustofuna Haf og Píetafélagi sem leiðir þessa fundi en hann hefur áratuga reynslu af starfi með syrgjendum og eins og hann segir sjálfur: Stundum er gott fyrir hrútana að vera einir saman. Bjarni kom í þáttinn í dag.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Kristín Vilhjálmsdóttir, þýðandi og ein aðstandenda heimildarmyndarinnar Að sjá hið ósýnilega, sem fjallar um konur á einhverfurófi. Hún er mikill lestrarhestur og við spurðum hana út í hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON