Vertu úlfur er ný leiksýning sem verður frumsýnd í Þjóðleikhúsinu á föstudaginn og er byggð á samnefndri bók sem er sjálfsævisöguleg frásögn Héðins Unnsteinssonar. Bókin vakti verðskuldaða athygli á sínum tíma og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Héðinn hefur látið til sín taka á sviði geðheilbrigðismála í tvo áratugi, meðal annars sem sérfræðingur á vegum stjórnvalda og hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. En hvernig ætli að það sé að horfa á heila leiksýningu á stóra sviði Þjóðleikhússinns um sjálfan þig og tuttugu erfiðustu ár lífs þíns? Héðinn kom í þáttinn og svaraði þeirri spurningu og fleirum.
Eins og við minnumst á í gær þá eru 117 ár síðan þýska fiskiskipið Friedrich Albert strandaði á Skeiðarársandi. Áhöfnin komst í land og gekk um sandana í ellefu daga, kaldir og hraktir. Þrír létust en á endanum tókst níu manns úr áhöfninni að komast að litlum sveitabæ þar sem þeir fengu hjálp og íslenskur læknir þurfti við afar frumstæðar aðstæður að taka útlimi af nokkrum þeirra vegna kalsára. Einar Magnús Magnússon vinnur nú að ritun handrits um strand þýska fiskiskipsins fyrir leikna sjónvarpsþætti sem ráðgert er að framleiða. Einar stefnir á leiðangur á strandstað næstu helgi. Hann kom í þáttinn og sagði frá þessu verkefni og heimildum sem hann hefur komist yfir.
Við fengum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni í dag. Þetta póstkort snýst fyrst um veðurfarið við hvítu ströndina. Þar eru blíðir vetur og Magnús er einn þeirra sem fer á ströndina nánast á hverjum degi. Hann segir frá því sem hann hefur lært um músíkina sem er með öðru sniði en við íslendingar eigum að venjast. Það verður líka sagt frá nýjum veitingastað sem íslensk kona var að opna í Alicante borg. Í lokin verður sagt af ferðalagi í einn fallagasta dal sem prýðir Alicantesýslu.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR