Í næstu viku hefst námskeið á vegum Rótarinnar sem nefnist Að segja frá. Konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi glíma oft við flóknar afleiðingar þess. Ein leið til valdeflingar og bata er að rjúfa þögnina sem oft ríkir um kynferðisbrot. Við fengum þær Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og Kristínu I. Pálsdóttur frá Rótinni í þáttinn til að segja okkur frekar frá því.
Þriðja þáttaröð The Crown hefur litið dagsins ljós og við ætlum að skoða aðeins bresku konungsfjölskylduna í þættinum. Um helgina var viðtal við Andrew prins hjá BBC sem hefur vakið sterk viðbrögð. Í því talar hann um vinskap sinn við Jeffrey Epstein, sem var dæmdur fyrir mansal, barnaníð og kynlífsþrælkun og framdi sjálfsvíg í fangelsi í ágúst. Í framhaldinu af viðtalinu sagði almannatengslafulltrúi prinsins, Jason Stein, starfi sínu lausu. Sigríður Pétursdóttir kom í þáttinn og fór með okkur yfir þetta mál og bresku konungsfjölskylduna.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Virpi Jokinen, skipuleggjandi og nemandi í jákvæðri sálfræði. Hún kemur frá Finnlandi, en hefur búið lengi hér á landi. Við forvitnuðumst um hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON