Heitar umræður hafa farið fram í kjölfar innsendrar greinar á visir.is í síðustu viku og svo í framhaldi af viðtali í Kastljósinu um efni greinarinnar. Þar var skipst á skoðunum um kynfræðslukennslu, um opna umræðu um mörk og að setja mörk. Sitt sýnist hverjum í þeirri umræðu og það er ekki ætlunin að taka afstöðu um það hér. En Hulda Jónsdóttir Tölgyes, sálfræðingur og fyrirlesari, setti fram áhugaverða punkta á Twitter þar sem hún benti á að umræðan um að setja mörk liggi talsvert dýpra en hefur komið fram í umræðunni. Viðbrögð okkar í slíkum aðstæðum og rætur þeirra séu oft ómeðvitaðar og samofnar öllum okkar samskiptum við aðra frá því snemma í æsku. Þar spila inn í áföll og erfiðleikar í samskiptum í bernsku auk samskipta við vini eða aðra umönnunaraðila í okkar lífinu. Við fengum Huldu, sem vinnur meðal annars við það að hjálpa fólki að setja mörk, til að útskýra þetta betur í þættinum í dag.
Það hefur lítið farið fyrir umræðu um breytingaskeið karla en það virðist vera að breytast. Testósterón er helsta karlkynhormónið og framleiða karlmenn um 10 sinnum meira af því en konur. Hormónahringur karlmanna er 24 klukkutímar þar sem testósterónmagn er mest á morgnana og minnkar svo þegar líða tekur á daginn. Frá 40 ára aldri minnkar testósterónið og við það getur myndast hormónaójafnvægi sem getur birst á ýmsan hátt. Þunglyndi, kvíði, skapsveiflur, ristruflanir og minni kynhvöt geta verið einkenni á breytingaskeiði karla. Við ræddum breytingaskeið karla við Theodór Francis Birgissyni ráðgjafa.
Við fengum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni í dag. Nú þegar farið er að hilla undir lok kórónuveirufaraldursins þá var rifjað upp í póstkorti dagsins ástandið á Spáni þegar ósköpin dundu fyrst yfir. Magnús sagði frá hundrað daga einangrun í útgöngubanni sem var sett á í mars fyrir tveim árum og hvernig nágrannar hans náðu að skemmta sér og hafa félagsskap þrátt fyrir að mega ekki fara úr húsi. Í lokin sagði hann svo frá hvernig ástandið er núna í Eyjum þar sem hann hefur búið eftir heimkomuna frá Alicante.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON