Edda Björk Þórðardóttir lektor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og sálfræðingur á geðsviði Landspítala kom í þáttinn í framhaldi af umfjöllun okkar undanfarið um áföll, afleiðingar áfalla og meðferðarúrræði. Edda Björk fræddi okkur í þættinum um áfallatengd svefnvandamál sem sum upplifa í kjölfar áfalla, en þau geta orðið þrálát.
Margir upplifa nýtt líf eftir starfslok og hjá Vinnuvernd eru haldin námskeið þar sem farið er yfir atriði sem gott er að vita til að njóta lífsins eftir starfslok. Meðal annars er fjallað um lífeyrismál, réttindi, húsnæðismál, fjármál, eignir, áhugamál ofl. Sigþrúður Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri á eftirlaunum, eins og hún kallar sig, kom í þáttinn og fræddi okkur frekar um þetta.
Kolbrún Kolbeinsdóttir kom svo til okkar, en hún var að útskrifast úr meistaranámi í kynjafræði og lokarannsókn hennar í náminu fjallar um konur í Konukoti, konur sem glíma við heimilisleysi. Hún talaði við konur sem hafa notað eða nota Konukot, hún talaði við forstöðufólk og rekstraraðila í málaflokki heimilislausra og fór í þau skýli sem eru í boði fyrir heimilislausa karla í Reykjavík og bar samana aðstöðuna við Konukot. Kolbrún sagði okkur frá því hverju hún komst að í þessu verkefni.
Tónlist í þættinum í dag:
Ferrari / Ragnheiður Gröndal (Páll Torfi Önundarson)
Í kjallaranum / KK Sextett (Jón Sigurðsson)
Come Fly With Me / Frank Sinatra (Sammy Cahn & Jimmy Van Heusen)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR