Við héldum áfram umfjöllun okkar um áföll og afleiðingar áfalla og hvað er hægt til að hjálpa fólki til að takast á við áföll, sem það jafnvel hefur orðið fyrir í æsku. Sigrún Sigurðardóttir, dósent við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri hélt á föstudag erindi á ráðstefnu á vegum BUGL, Barna- og unglingageðdeildar. Erindið bar yfirskriftina Sálræn áföll og erfið upplifun í æsku. Þar talaði hún um áfallamiðaða nálgun, sem hún ásamt samstarfsfólki sínu, innleiddu í Bergið Headspace, stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk. Við fengum Sigrúnu til að segja okkur frá efni erindisins, ACE listanum svokallaða, sem er einfaldur spurningalisti sem felur í sér tíu spurningar um áföll og erfiða reynslu á jafn mörgum sviðum á fyrstu 18 æviárnuum.
Strandapósturinn kom fyrst út árið 1967 og eins og segir þar í formála var ritinu ætlað að vera tengiliður milli fólksins heima og heiman - bregða skyldi upp myndum horfinna tíma og líðandi stundar. Kristín okkar Einarsdóttir flettir oft í gömlum og nýjum Strandapóstum og rakst tvær frásagnir sem hún, í styttri útgáfu, deildi með hlustendum í dag.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON